Vínpörun með íslenskum jólamat

Vínpörun með íslenskum jólamat

Vínpörun með íslenskum jólamat

Hvaða vín passar best með jólamatnum? 

Vínpörun með jólamatnum getur verið vandasöm þar sem íslenskar jólahefðir fela í sér ýmsa sérstöðu í matargerð á borð við saltaðan og reyktan mat, villibráð, purusteik, sætt meðlæti og svo mætti áfram telja. 

Það getur þó gert góðan jólamat alveg himneskan ef vínpörunin heppnast vel og nær að skapa rétt mótspil við jólamatinn. Rétt vín með jólamatnum skiptir öllu máli. 

Við hjá Vínklúbbnum höfum hér tekið saman létt yfirlit yfir okkar meðmæli um hentug vín og þrúgur með ýmsum algengum jólaréttum á Íslandi sem vonandi kemur að gagni við val á jólavínunum í ár. Á hverju ári kynnir Vínklúbburinn einnig til leiks þrjú sérvalin hágæða jólavín í jólakassa Vínklúbbsins ásamt villibráðarkassa Vínklúbbsins sem eru sérvalin til að parast vel með jólamatnum. Gleðilega hátíð!

Vín með hangikjöti

Erfitt er að finna vín sem passar með flóknu bragði af hangikjöti þar sem reykur og salt eru í aðalhlutverki. Margir telja dökkan bjór rétta drykkinn með hangikjöti og við tökum undir þá tillögu. 

 • Við mælum með: Ef drekka á vín með hangikjötinu, þá verður vínið að hafa góða ávaxtasætu og berjakeim sem slær á saltið og reykinn. Þá er best að velja hálfsæt hvítvín og rauðvín með mikla berjasætu. Hér myndu bragðmikil Tempranillo eða Merlot henta vel. Remelluri Reserva Rioja (2016)

 • Aðrir möguleikar: Hálfsæt hvítvín t.d. Gewürztraminer frá Alsace eða Riesling, borið fram vel kælt. Einnig er hálfsætt freyðivín mjög áhugaverður valkostur, Champagne, Prosecco eða Cava. Champagne Guy Mea La Tradition Côte des Noirs Brut Premier Cru og Prosecco Rosé Spumante

Vín með hamborgarhrygg

Svipuð lögmál gilda eins og fyrir hangikjöt, en hamborgarhryggur hefur þó ekki eins sterkt reykjar- og saltbragð og hangikjöt. Vínið þarf að passa við sætar brúnaðar kartöflur, feita brúna sósu og súrt rauðkál.

 • Við mælum með: Þegar horft er til jafnvægis í bragði, eru hvítvín væntanlega besti drykkurinn með hamborgarahrygg. Hér eru nokkrir valkostir en samnefnarinn er ávaxtaríkt vín með sætu. Vín úr Pinot Gris þrúgunni, Riesling og jafnvel Sauvignon Blanc koma vel til greina, en Chardonnay vantar sætleikann þótt ávaxtabragðið samræmist réttinum.

  Les Vignes du Precheur (2019)

 • Aðrir möguleikar: Margir kjósa þó að drekka rauðvín með hamborgarahryggnum á aðfangadagskvöld og þá má benda á nýjaheimsvín t.d. Merlot og/eða Cabernet Sauvignon frá Chile eða Ástralíu þar sem ávaxtasætan kemur vel á móti saltinu og reykbragðinu. Pinot Noir og Ripasso koma einnig til greina.

  Reserva Pinot Noir Casablanca (2015) og Chateau Fleur de Lisse Grand Cru (2019)

Vín með purusteik

Til viðbótar við þær kröfur sem meðlætið gerir, þá þarf að taka tillit til kjötsins sem er ljóst og viðkvæmt, en jafnframt feitt.

 • Við mælum með: Velja vín með léttleika og glæsileika t.d. léttari Pinot Noir frá Bourgogne eða Nýja Sjálandi. Gott að bera vínið fram kælt. Hér gætu vönduð Piemonte vín einnig komið til greina. Ef kjötið er mjög feitt má athuga rauðvín með aðeins hærri alkóhólprósentu, en samt í léttari kantinum, t.d. Shiraz frá Rhone héraði eða Ástralíu.

  Barbera Piemonte (2021)

 • Aðrir möguleikar: Það er einnig hægt að fara í þveröfuga átt og velja í staðinn hálfsæt hvítvín frá Riesling. Hvítvínið og sætleikinn parast vel við ljóst kjötið og meðlætið.

  Grand Cru Moenchberg Riesling (2018)

Vín með villibráð (hreindýr, rjúpa, gæs)

Íslensk villibráð er bragðmeiri en sú innflutta. Villibráð er magurt kjöt með einkennandi beisku lyngbragði, sérstaklega rjúpa. Því ætti að forðast vín með mikil og þurrkandi tannín, það fær kjötið til að virka þurrara.

Vín með íslensku lambakjöti

Lambakjöt er oft kryddað með tímian, rósmarín, oregano og hvítlauk sem eru algeng í Suður-Frakklandi. Því er skynsamlegt að velja vín sem fara vel með þessu kryddi.

 • Við mælum með: Það kemur því ekki á óvart að að þroskuð frönsk vín sem eru byggð á Grenache og Shiraz muni henta einstaklega vel. Hliðstæðan samhljóm má einnig fá með krydduðum, tunnuþroskuðum spænskum vínum úr Tempranillo – þrúgu sem kallar fram ljúffenga ávaxtasætu sem passar við náttúrulega sætleika lambsins. Þetta kemur vel fram t.d. í Rioja Reserva.

  Olarra Clasico Reserva (2018)

 • Aðrir möguleikar: Einnig kemur Chianti mjög vel til greina, ekki síst Montalcino eða Montepulciano.

  Vino Nobile di Montepulciano Cantine Dei (2018)

Vín með nautalund 

Nautakjöt og ekki síst nautalund er val margra þegar til stendur að hafa eitthvað virkilega gott í matinn eins og á jólunum. Allir vínáhugamenn vita að rauðvín og nautakjöt eigi vel saman og í sjálfu sér má segja að öll góð rauðvín muni skila sínu með góðri nautasteik.

Vín með kalkún

Kalkúnakjöt er ljóst og magurt, ekki ósvipað kjúklingi en þó heldur bragðmeira. Kalkúnn er vinsæll hátíðarréttur á stórhátíðum og þá oftast borinn fram með miklu meðlæti, fyllingu og bragðmikilli sósu. Það er því meðlætið sem hefur mest um það að segja hvaða vín hentar best. 

 • Við mælum með: Hér kemurt margt til greina, bæði hvítt og rautt og best að smekkur ráði för. Að öllu jöfnu væri Rioja heldur í þyngri kantinum fyrir kalkún en við mælum með einstöku nýstárlegu Rioja víni þar sem framleiðsluaðferðin kallar fram léttan ávaxtakenndan keim sem hittir beint í mark: LZ Rioja (2019)
 • Aðrir möguleikar: Ef hvítvín verður fyrir valinu, þá er vert að benda á Chardonnay sem hefur verið geymt í eikartunnum. Þetta er mikilvægt í þessu samhengi vegna hinnar ríku bragðvíddar sem eikin færir víninu og parast vel við kalkúninn. El Enemico Chardonnay Mendoza (201) og Bourgogne Chardonnay La Vigne du Cloitre (2021)

Vín með kjúklingi

Kjúklingur er nokkuð hlutlaus í sjálfu sér, með smá sætu í bragðinu. Vínið sem fylgir kjúklingaréttum má því ekki vera of sterkt. Ljósir og léttir réttir kalla á ljóst og létt vín. Hins vegar er kjúklingur oft notaður í mikið kryddaða rétti og þá verður kryddið afgerandi fyrir hvaða vín verður fyrir valinu.

 • Við mælum með: Ef gengið er út frá einfaldri matargerð þar sem kryddið er fyrst og fremst salt og pipar, þá er rétt að velja létt, ávaxtaríkt og sýruríkt vín - annað hvort rautt eða hvítt. Góð tillaga væri franskt Beaujolais rauðvín. Þá eru nokkur hvítvín sem munu fara vel, t.d. Pinot Gris og Chardonnay. Hér væri einnig áhugavert að prófa franskt Orange vín.

  Salamandre (2022)

 • Aðrir möguleikar: Grillaður kjúklingur aftur á móti þarf mun kröftugra vín, t.d. Zinfandel frá Kaliforníu eða bragðmikið Chianti Classico. Asískir kúklingaréttir kalla á arómatískt ilmandi hvítvín eins og Gewürztraminer eða jafnvel franskt rósavín.

  Poggio Scalette, Chianti Classico (2021)

Vín með önd

Andakjöt er frekar dökkt og skinnið salt og stökkt, en þetta eru þeir þættir sem helst þarf að hafa í huga þegar vínið er valið.

 • Við mælum með: Kjötið kallar á vín með fyllingu og tanníni á meðan saltið í skinninu kallar á sýru sem kemur á móti fitunni. Sem sagt vín með ákveðinni þyngd og bragðstyrk. Amarone og Ripasso eru klassísk vín með önd sem og Chateauneuf-du-Pape frá Rhone.

  Domaine de la Palud Châteauneuf du Pape (2019)

 • Aðrir möguleikar: Það má einnig huga að Zinfandel eða Shiraz frá Kaliforníu, eða Primitivo frá Suður-Ítalíu. Einnig má íhuga Grenache frá Rhone, eða Garnacha frá Spáni (sama þrúga) sem er oft talinn ódýr valkostur við hið dýra Chateauneuf-du-Pape.

  Plano Alto Garnacha-Cariñena (2019)

Vín með laxi

Það er ekki erfitt að finna vín sem passar með laxi, en nokkur atriði þarf þó að hafa í huga. Lax er frekar feitur fiskur og vínið þarf að hafa hæfilega mikla sýru til að svara því. Laxinn er matreiddur á ótal vegu og því þarf einnig að taka tillit til þess þegar vínið er valið.

 • Við mælum með: Hvítvín er augljós kostur og best að velja út frá því hvernig laxinn er matreiddur: Þurr Riesling frá Þýskalandi eða Alsace með ferskum laxi. Franskt Chardonnay, Bourgogne eða Sauvignon Blanc fyrir ofnbakaðan lax. Chardonnay frá Ástralíu, Kaliforníu eða jafnvel Suður-Afríku með grilluðum laxi.

  Villa Bürklin Riesling (2021)

 • Aðrir möguleikar: Hér eru aðrir áhugaverðir valkostir: Freyðivín með ferskum laxi og þá Brut. Rósavín með ofnbökuðum laxi. Svo má brjóta hefðir og hafa rauðvín með grilluðum laxi og velja þá vín í léttari kantinum, t.d. franskt Beaujolais eða Pinot Noir og muna að kæla vínið. Forðast hins vegar þung vín eins og Barolo og Malbec.

  Crémant de Bourgogne Pinot Noir Brut

Vín með hvítum fiski

Hvítur fiskur er mjög hlutlaus hvað bragð varðar og fiskréttir oftast ferskir og mildilega kryddaðir.

 • Við mælum með: Í stórum dráttum má segja að hvítvín frá vínhéruðum við ströndina séu öruggur kostur með fiski. Spænska Albarino þrúgan frá Rías Baixas er frábær kostur.

  Pazo de Seoane Rosal (2021)

 • Aðrir möguleikar: Aðrir möguleikar eru Pinot Grigio hvítvín frá Ítalíu og Chardonnay frá Frakklandi, sérstaklega Chablis sem er ekki geymt í eikartunnum og fær því öðruvísi bragðprófíl en önnur Chardonney vín sem skilar sér ákaflega vel með fiski.

  Chablis per Aspéra (2021)